Hjól við allra hæfi

10.  september 2017
Skráning hefst í febrúar 2017

 

facebook instagram twitter

Viðburðurinn

Hjólað í miðbæ Reykjavíkur, í Laugardal og á Þingvelli.

Tour of Reykjavík býður upp á fjölbreyttar hjólaleiðir fyrir alla þá sem áhuga hafa á hjólreiðum en keppnin sjálf er haldin í Laugardalnum 10.september 2017 og ýmist hjólað alla leið að Þingvallavatni eða styttri hringi í Laugardal og miðborginni. Mikið verður lagt upp úr að mæta væntingum yngsta hjólreiðafólksins þar sem boðið verður upp á stuttan hring í Laugardalnum ásamt þrautabraut.

Markmið viðburðarins er tvíþætt, annars vegar að almenningur taki virkari þátt í hjólreiðaviðburðum og ekki síður efla hjólreiðar á afreksstigi hér innanlands. Vonir standa til að erlend þátttaka aukist ár frá ári sem vonandi mun hvetja innlent hjólreiðafólk til dáða.

Viðburðurinn er haldinn annan sunnudag í september og rás- og endamark er fyrir framan Laugardalshöllina en þar safnast þátttakendur saman fyrir ræsingu. Í Laugardalshöllinni verður hægt að nýta sér sérfræðiþjónustu starfsmanna helstu hjólaumboða og ef til vill versla það allra nauðsynlegasta. Afhending skráningagagna fer svo fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 10. september 2016, frá kl. 12-15 en einnig verður hægt að skrá sig á staðnum. Skráningu á netinu lýkur kl. 23 föstudaginn 9. september 2016. Verðlaunaafhending fer svo fram í anddyri Laugardalshallarinnar en þess ber að geta að einungis eru veitt verðlaun í 110km og 40km. Andvirði þátttökuverðlaunapenings mun renna til styrktar Hjólakrafti sem láta sér þá varða sem ekki hafa fundið sig í öðru frístundastarfi.

Keppninni er stýrt frá Laugardalnum, og mun mótstjórn vera með aðsetur í Laugardal. Brotið verður blað í lokunum, þar sem að öryggisbílar, lögregla, dómarabílar og aðrir þjónustubílar munu fylgja hjólreiðafólki í lengstu vegalengdunum.

Einkunnarorð Tour of Reykjavík eru “Hjól við allra hæfi ”.

Smellið á myndina til að skoða dagskrá keppnisdags og kort af marksvæði.

tor marksvaedi 2016

Vegalengdir

Tour of Reykjavik er með fjórar mislangar vegalengdir og því er hægt að velja sér þá sem hentar getu og aldri hvers og eins.


110km

Hjóluð verður falleg og krefjandi leið frá Laugardalnum til Þingvalla um Nesjavallaleið. Farið um Grafning og Mosfellsheiði til baka, framhjá Hörpu og endað í Laugardalnum. Síðustu 13km er á sömu lokuðu braut og 40/13km leiðirnar. Keppnin er ætluð fyrir lengra komna, með reynslu af götuhjólreiðum. Þeir eru einnig velkomnir sem setja sér það markmið að klára keppnina á sínum forsendum. Einnig er boðið upp á liðakeppni (sjá reglur).

Ræst verður kl. 8:45 frá Laugardalshöll, hjólreiðamenn koma saman á bílastæði við Laugardalsvöll og fara inn á rásmarksvæði þegar að 40km keppnin er hafin. Farið er í fylgd lögreglu upp á Miklubraut, framkvæmt fljúgandi start og sem leið liggur Suðurlandsveg. Fyrst er körlum startað og svo konum. Á undan og eftir fara þjónustubílar en fylgdin er mest með fremstu mönnum. Marki verður lokað kl. 14.

Veitt verða verðlaun fyrir fremstu hjólreiðamenn í helstu aldursflokkum beggja kynja. Peningaverðlaun verða í boði fyrir tvö efstu sætin í karla- og kvennaflokki, þ.e. 200.000kr.- fyrir 1. sætið og 100.000kr.- fyrir 2. sætið. Að auki verður KING OF THE MOUNTAIN á Nejavallaleið og Polar sprettur þegar farið er í gegnum Mosfellsbæ.

Öllum keppendum í 110 km hjólaleið er boðið upp á mexikóska kjúklingasúpu á veitingapalli Laugardalshallar og í Laugardalslaugina að viðburði loknum. 250 fyrstu hjólarar til að skrá sig í 110km fá vandaðan útivistarbol frá Cintamani.40km

Hjólaleiðin liggur frá Laugardalnum, um Skeifuna, Bústaðarveg, Hringbraut, í gegnum miðborgina og þaðan til baka Sæbraut og inn í Laugardal. Farnir verða þrír hringir á lokuðu svæði fyrir umferð þar sem að eiga má von á blöndu af töluverðri keppni og þátttöku almennings. Vonir standa til að á brautinni myndist skemmtileg stemning allra þeirra sem áhuga hafa á hjólreiðum og því ætti leiðin að henta bæði fyrir keppnisfólk og almenning.

Ræst er kl. 8:30 frá Laugardalshöll þar sem að hjólreiðamenn koma saman á bílastæði við Laugardalsvöll og eru þeir fyrstu sem gera sig klára á marksvæði. Hraðahólf í upphafi skipta hópnum upp og fær fremsti hópur fylgd og ber öðrum að víkja fyrir þeim eins og hægt er (sjá reglur). Virk tímataka verður í boði svo þátttakendur fái staðfestan tíma og veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í helstu aldursflokkum karla og kvenna. Í ár verður einungis boðið upp á einstaklingskeppni. Keppendum í 40km er boðið í Laugardalslaugina að viðburði loknum.


13km

Farinn er einn hringur á lokuðu svæði fyrir umferð þar sem að áhersla verður á þátttakendur njóti þess að hjóla á auðum götum borgarinnar. Þátttakendur munu geta farið þessa vegalengd á sínum hraða án þess að það sé nokkuð verið að ýta á eftir þeim. Hringurinn liggur frá Laugardalnum, um Skeifuna, Bústaðarveg, Hringbraut, niður í miðborgina og þaðan til baka Sæbraut og inn í Laugardal. Virk tímataka verður í boði svo þátttakendur fái staðfestan tíma en ekki verða veitt nein verðlaun. Skemmtileg vegalengd fyrir fjölskylduna að fara saman, hentar fyrir börn frá 10 ára aldri.

Ræst verður kl. 10 frá Laugardalshöll og þátttakendum er boðið í Laugardalslaugina að viðburði loknum.


Barnabraut

Hjólaleiðin tekur mið af aldri barnanna en leitast verður við að upplifun þeirra verði sem eftirminnilegust. Hjólaður verður hringur í Laugardalnum og meðal annars farið um þrönga og skjólsæla skógarstíga. Hjólaleiðin á að henta börnum frá fjögra til tólf ára en þó er vissara að þau yngstu séu í fylgd fullorðinna. Engin tímataka er í þessari vegalengd og engin verðlaun önnur en ánægjan. Hjólakraftur mun annast skipulag og framkvæmd barnabrautar viðburðarins en samtökin hafa á undanförnum árum látið að sér kveða í hjólreiðum á Íslandi. Andvirði verðlaunapenings allra þátttakenda Tour of Reykjavík mun renna til samtakanna.

Ræst verður kl. 14 frá Laugardalshöll og þátttakendum er boðið í Laugardalslaugina að viðburði loknum.

Truflun á umferð

Víðtækar götulokanir og truflun á umferð verða vegna Tour of Reykjavik sunnudaginn 11.september. Á kortinu hér fyrir neðan má sjá nákvæmlega hvaða götur eru lokaðar á hvaða tíma. Kortið opnast í nýjum glugga þegar ýtt er á það og síðan þarf að ýta á stopp- og þríhyrningamerkin til að fá nánari upplýsingar um hverja götu fyrir sig.

Myndir

Reglur

Okkur er öryggi þátttakenda efst í huga. Vinsamlega lesið reglurnar vel og virðið þær þegar í keppnina er komið.

 1. Reglur þessar eru fyrst og fremst hugsaðar til að tryggja öryggi allra keppenda og biðlum við til keppenda um að sýna mótshöldurum skilning og fara eftir reglunum í einu og öllu.
 2. Almenn umferðarlög gilda fyrir alla keppendur en þó verður fylgd og þjónusta mest við þá fremstu. 
 3. Í liðakeppni (110km) eru fimm keppendur, þrír bestu tímarnir telja í liðakeppninni í karla og kvennaflokki. Hver keppandi getur einungis verið í einu liði. Það má ekki nýta sér skjól af gagnstæðu kyni. 
 4. Hvert lið í liðakeppninni getur sótt um að hafa einn fylgdarbíl í 110 km hjólaleiðinni en annars eru þeir bannaðir. Mótstjórn ákveður hvaða lið mega vera með fylgdarbíl og hver ekki. Of margir bílar í braut getur haft hættu í för með sér. Fylgdarbíll getur aðstoðað með fatnað, slöngur, dekk og verkfæri. Einnig má skipta um gjarðir í keppninni**.
 5. Akstur á braut:
  a. Öryggisbíll/hávaðabíll leiðir fremstu hjólara í 13km, 40km og 110km alla leið frá rásmarki í endamark. 
  b. Mótorhjól lögreglu leiðir í 110km brautinni þar sem að brautin er ekki að öllu lokuð fyrir umferð.
  c. Mótorhjól lögreglu leiða í 40km keppni og gegna því hlutverki að hliðra til fyrir fremsta hjólreiðafólki, bæði þegar það hringar aðra keppendur og gagnvart öðrum utanaðkomandi þáttum.
  d. Með fremstu hópum fylgja rauðmerktir dómarabílar (einn í 13km, einn í 40km og þrír í 110km)
  e. Þjónustubíll/skúffa fylgir á eftir hjólurum og tekur upp þá sem gefast upp, biluð hjól og annan búnað á braut. 
  f.  Fjölmiðlabíll fylgir eftir fremstu hjólurum í 110km keppninni.
 6. Allir keppendur skulu hjóla með reiðhjólahjálm á meðan á keppni stendur.
 7. Liggistýri, letingjar, TT-bars eða annar sambærilegur búnaður er bannaður í 110km og 40km keppninni. Venjulegir stuttir stýrisendar (festir á enda fjallahjólastýris) eru leyfðir. Öll hjól eru leyfð en ITT gjarðir bannaðar.
 8. Öll venjuleg reiðhjól eru leyfileg í keppninni, en gæta skal að búnaður á því (ef til staðar), svo sem standari, bögglaberi, bretti eða annað slíkt, sé vel festur, og af búnaðinum stafi ekki hætta fyrir aðra keppendur.
 9. Tímataka er í öllum vegalengdum en einungis er ábyrgst að s.k. virk tímataka með flugu í 40km og 110km. Tímatökuflöguna þurfa þátttakendur að festa á hjól. Hún skal vera á gafli. Engin flaga enginn tími. Flögunni verður að skila, starfsmaður tekur flöguna af hjólinu í lok keppni. 
 10. Umgengni: Hjálpumst að við að halda náttúru okkar lands hreinni og fallegri. Óheimilt er með öllu að kasta frá sér rusli á leiðinni, þ.m.t. drykkjarílát, umbúðum utan af orkugeli eða orkubitum. Glerílát eru bönnuð. Brot á þessu varðar ævilangt keppnisbann. 
 11. Keppendur eru á eigin ábyrgð í keppninni, sbr. skilmálar í skráningakerfi og ef hjólreiðafólk slasast þá ber því að leita til bráðamóttöku Landspítalans (112). 
 12. Tryggingar: Við bendum á að dýr hjól þarf að tryggja sérstaklega hjá þínu tryggingarfélagi og ef þú ert að taka þátt í hjólreiðakeppni er rétt að vera slysatryggð/ur.
 13. Keppnin fer að nokkru leyti fram á opnum vegum, og ber keppendum að virða umferðarreglur öllum stundum, t.d. þegar bílum er mætt, eða þegar hjólað er út á akbraut.
 14. Keppandi mælist kominn í mark þegar fremsti punktur framdekks snertir lóðlínu yfir fremri brún marklínu.
 15. Öryggisreglur í umferð:
  a. Ef þú stoppar, færðu þig strax út í vegarkant.
  b. Ef þú þarft að hætta keppni, færðu hjólið út fyrir vegarkant en þó sýnilegt fyrir þjónustubíla Tour of Reykjavík
  c. Tour of Reykjavík fer að nokkru leyti fram á almennum þjóðvegum þannig að hjólreiðafólk ætti ekki að hjóla samhliða þar sem það getur hindrað umferð. Óreyndum keppendum er ráðlagt að hjóla ekki saman í knippum.
  d. Best er að fara ekki of geyst í byrjun til þess að hafa orku fyrir seinni hluta keppninnar.
  e. Ekki taka fram úr öðru hjólreiðafólki nema öllu sé óhætt! 
 16. Fatnaður: Klæðið ykkur eftir veðri enda allra veðra von!
 17. Bannað er að nýta sér skjól af utanaðkomandi farartækjum í keppni. 
 18. Í 110km keppninni verður keppendum startað á sama tíma frá Laugardalnum. Þegar komið er niður á Miklubraut verður keppninni startað kynskipt með formlegum hætti en fram að því er hópnum haldið saman í einum hóp (controled start).
 19. Á síðustu 100m í endaspretti skal keppandi undantekningalaust halda beinni línu, og hafa a.m.k. aðra hönd á stýri. Við brot á þessari reglu skal dæma keppandann í síðasta sæti í þeim hópi sem hann var í. Hafi hegðunin ekki haft nein áhrif á úrslit sprettsins er dómara heimilt að láta áminningu nægja.
 20. Myndataka: Íþróttabandalag Reykjavíkur áskilur sér rétt á að nota myndir og myndbandsbúta af þátttakendum í markaðsefni keppninnar.
 21. Brot á reglum:
  a. Þátttakendur sem ekki fara eftir ofangreindum reglum eiga á hættu að verða skráðir úr mótinu.
  b. Mótsnefnd áskilur sér rétt til að stöðva í ræsingu hvern þann sem ekki fylgir þessum reglum.

**Fylgdarbílar eru leyfðir í brautinni. Þau lið sem hyggjast vera með fylgdarbíl þurfa að sækja um það, þar sem fram kemur skráningarnúmer á bifreið, nafn á bílstjóra og GSM númer bílstjóra. 

Fylgdarbílar skulu í einu og öllu fara eftir fyrirmælum dómara. Þegar tími á milli hópa er orðinn 30 sekúndur eða meiri og dómari telur það vera öruggt að fara á milli hópa færir dómarabíllinn sig á milli hópanna og þeir fylgdarbílar sem eiga liðsmenn í þeim hóp fylgja á eftir. Til að minnka slysahættu er fylgdarbílum almennt ekki heimilt að keyra upp að keppendum nema ef um brýna nauðsyn sé að ræða.  Hlutverk fylgdarbíla skal fyrst og fremst takmarkast við að aðstoða keppendur ef óhöpp verða, t.d. springur á dekki o.þ.h.  Fylgdarbílum er ekki heimilt að rétta keppendum vatnsbrúsa né mat nema í algerum undantekningatilfellum, svo sem ef keppandi hefur misst brúsa.

Keppnisstjórn minnir í þessu sambandi á drykkjarstöðvar sem verða staðsettar Við KOTM á Nesjavallaleið, Polarsprett í Mosfelllsbæ, og Cintamanistöð við Pósthússtræti.  Fylgdarbílum er óheimilt að keyra upp að keppendum til að gefa millitíma.

Fylgdarbílar skulu almennt alltaf keyra á eftir dómara, þeir mega aldrei vera á milli dómarabíls og keppenda.  Eftir að komið er inn á borgarhringinn skulu fylgdarbílar keyra í mark án þess að hafa frekari afskipti af keppninni.

Verði misbrestur á að fylgdarbílar fylgi ofangreindum reglum varðar það tímavítum eða brottvísun úr keppni þess keppanda eða liðs sem í hlut á.

DÓMNEFND:

GÚSTAF ADOLF HJALTASON (FORMAÐUR)
ALBERT JAKOBSSON (KARLAR-110KM)
LILJA BIRGISDÓTTIR (KONUR-110KM)
GUÐMUNDUR JAKOBSSON (MARKDÓMARI)
MARÍA SÆMUNDSDÓTTIR (40KM)
VIGGÓ VIGGÓSSON (SPRETTIR)

MÓTSTJÓRN:

ODDUR VALUR ÞÓRARINSSON
KJARTAN ÁSMUNDSSON
GÚSTAF ADOLF HJALTASON
VIGGÓ VIGGÓSSON
FRÍMANN ARI FERDINANDSSON
ALBERT JAKOBSSON
LILJA BIRGISDÓTTIR
ÞORVALDUR DANÍELSSON

Skráning

Forskráningu í Tour of Reykjavik 2016 er lokið. Afhending skráningagagna fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 10. september kl.12-15. Einnig verður hægt að sækja gögn í Laugardalshöll frá kl.7:30 sunnudaginn 11.september.

Smelltu hér til að skoða lista yfir forskráða þátttakendur. 
Athugið að ekki vildu allir láta nafn sitt birtast á þátttökulista.

 

Verðskrá    
Tímasetning 14.07.16 - 26.08.16 27.08.16-10.09.16
Barnabraut (2km) 1.200 1.500
13km 2.400 3.000
40km - 13 ára og eldri 4.800 6.000
110km - 18 ára og eldri 9.600 12.000

Úrslit

Smellið hér til að finna úrslit í Tour of Reykjavik 2016.
Athugasemdir við úrslit skal senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Hægt er að nálgast aldursflokkaverðlaun á skrifstofu Íþróttabandalags Reykjavíkur,
Engjavegi 6, frá og með þriðjudeginum 13.september milli kl.9 og 16.


Rás2 mun fjalla ítarlega um Tour of Reykjavik sunnudaginn 11.september en Sóli Hólm og Helgi Berg
munu lýsa keppninni í beinni útsendingu á Rondo, FM 87,7.

Samstarfsaðilar

avis barilla camelbak cintamani kristall tor 

wow margtsmatt polar tomtom floridana tor